Eftir Björn Gíslason
•
2. janúar 2024
Áramót eru jafnan góður tími til að fara yfir liðið ár og horfa til markmiða komandi árs. Árið 2023 var Stefnu farsælt ár. Rekstur félagsins gekk vel og starfsfólki hélt áfram að fjölga á árinu með vaxandi verkefnastöðu. Nú í árslok störfuðu hjá félaginu 43 starfsmenn í 41stöðugildi og höfum við vaxið jafnt og þétt úr 16 stöðugildum fyrir 10 árum. Árið var einnig 20 ára afmælisár félagsins og var því fagnað með afmælisboðum bæði norðan og sunnan heiða með viðskiptavinum og starfsfólki - sem og með skemmtilegri árshátíðarferð starfsmanna til Prag á haustdögum. Það er ekki sjálfgefið að fyrirtæki nái 20 ára aldri - enda líftími fyrirtækja sífellt að styttast. Það er því ánægjulegt að fagna þessum tímamótum þegar Stefna er að ná fullorðinsaldri - og það við góða heilsu. Að sama skapi er gaman að segja frá því að fyrsti starfsmaður félagsins, Róbert Freyr Jónsson, sölustjórinn okkar, starfar enn hjá félaginu. Eins og á fyrri árum hefur Stefna haldið áfram að þróast á árinu sem hugbúnaðar- og sérfræðifyrirtæki, en líkt og áður hefur ráðgjöf og sértæk hugbúnaðarþróun sífellt skipað sér stærri sess í starfsemi okkar. Þessi þróun sést vel í mörgum þeirra verkefna sem við tókumst á við á árinu.